Kjöt og grænmetissúpa (úr Gott og gagnlegt 2 )
Hráefni:
- 5–10 cm af blaðlauk (ljósi hlutinn)
- 150 g beinlaust lambakjöt af framparti, skorið í litla bita og fitusnyrt
- ½ tsk grófmulinn pipar (piparblanda er best)
- örlítið af picanta kryddi
- 1–2 msk matarolía
- 4 ½ dl vatn
- 1 meðalstór gulrót
- 70–90 g kartöflur
- 60 g rófur
- lítill biti af hvítkáli
- 1–1 ½ tsk lambakjötskraftur
- 1 tsk timian
- ¼ tsk salt
- steinselja
Aðferð:
- Setjið kjötbitana á bretti og skoðið þá. Fjarlægið óæskilega fitu, ef hún er til staðar og gætið þess að bitarnir séu hæfilega smáir. Myljið eða stráið pipar og picanta kryddinu yfir kjötið.
- Hreinsið blaðlaukinn og skerið hann niður, fyrst að endilöngu og þá í sneiðar.
- Hitið matarolíuna í þykkbotna potti og léttsteikið kjötið.
- Dragið pottinn til hliðar og bætið vatninu og blaðlauknum út í pottinn. Látið suðuna koma upp og minnkið þá hitann. Ef til vill myndast froða og þá þarf að fjarlægja hana með spaða eða sleif.
- Hreinsið grænmetið, skerið það í litla bita og setjið út í pottinn ásamt kryddinu.
- Sjóðið í 20 mínútur. Gott er að klippa steinselju yfir súpuna áður en hún er borin fram.